Nýtt baðlón í Laugarási
Laugarás Lagoon er staðsett í Laugarási, í grennd við Iðubrú í Bláskógabyggð og opnar fyrir gesti næsta sumar en framkvæmdir eru nú í fullum gangi.
Baðstaðurinn mun innihalda tveggja hæða baðsvæði, gufuböð, hituð með jarðvarma úr uppsprettu í þorpinu, og kalda laug með jökulvatni úr Hvítá. Þökk sé víðfeðmu útsýni yfir ána, skóglendi, sveitir og fjöll skapast þar töfrandi samspil slökunar og nándar við náttúruna. Á veitingastaðnum Ylja verður boðið upp á fjölbreytt og árstíðabundið úrval veitinga með áherslu á að nýta hráefni úr nærsveitum.Baðlónið verður staðsett á bökkum Hvítár. Staðsetningin í Laugarási er í miðju uppsveitanna, nærri gullna hringnum og stutt í helstu náttúruperlur og sögustaði.
Arkitektar eru T.ARK, verkfræðihönnun er hjá Eflu og Hildiberg sér um lýsingarhönnun.
Verkefnastjóri er Þórunn Arnardóttir.