Laugarás Lagoon opnar

Það sem eitt sinn var hugmynd er nú orðið að veruleika; byggingu Laugarás Lagoon er lokið og lónið tekur á móti sínum fyrstu gestum 15. október.

Lónið er um þúsund fermetrar að stærð og á tveimur hæðum, tengdum með glæsilegum fossi sem gestir ganga um. Á útisvæði eru tvær sánur, útisturtur, kaldur pottur og heitur pottur í skógarrjóðri, sem býður upp á einstaka upplifun kyrrðar og náttúru. Hluti af heildarupplifuninni felst í heimsókn á veitingastaðinn Ylju, þar sem matreiðslumaðurinn Gísli Matthías Auðunsson býður upp á fjölbreyttan, heilnæman mat úr afurðum frá bændum í nágrenni staðarins.

Byggingin er verk Mannverks, Arkitektar eru T.ARK, verkfræðihönnun er hjá Eflu og Hildiberg sér um lýsingarhönnun. Verkefnastjóri Þórunn Arnardóttir og byggingarstjóri Jakob Ásmundsson. Saman hefur þessum aðilum tekist að skapa einstakt baðlón þar sem náttúra, jarðhiti og hönnun mætast í sátt. Það er okkar von að gestir finni hér ró, innblástur og tengingu – við landið, vatnið og sjálfa sig.

Stækkun gagnavers hjá atNorth

Við erum stolt af því að hafa lokið við fasa 1 af stækkun gagnavers fyrir atNorth í Reykjanesbæ.

Verkefnið var að fullu klárað í júlí 2025 og var unnið í nánu samstarfi við verkkaupa.

Sérstakar þakkir til allra sem lögðu sitt af mörkum til að gera þetta verkefni að veruleika!

Breytingar í yfirstjórn Mannverks

Ingvar Árnason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri framkvæmda hjá bygginga- og ráðgjafarfyrirtækinu Mannverk ehf. Ingvar tekur við starfinu af Jónasi Má Gunnarssyni sem gegnt hefur þessu hlutverki samhliða starfi forstjóra og mun áfram leiða félagið að áframhaldandi vexti. Ingvar mun gegna hlutverki staðgengils forstjóra, taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins og bera lykilábyrgð á verkefnum félagsins og uppbyggingu starfseminnar.

Ingvar hefur starfað hjá Mannverk síðastliðin tíu ár, lengst af sem yfirverkefnastjóri við byggingu gagnavers Verne Global á Ásbrú. Hann er með menntun í byggingarverkfræði og býr yfir víðtækri reynslu af stýringu flókinna framkvæmda. Áður starfaði hann sem hönnuður og verkefnastjóri hjá Rosenberg WorleyParsons í Noregi.

Ingvar hefur leitt fjölbreytt verkefni á vegum Mannverks, þar á meðal íbúðabyggingar, hótelbyggingar og stórframkvæmdir í gagnaversiðnaði. Þessi reynsla nýtist vel í næstu skrefum félagsins, þar sem vöxtur og aukin sérhæfing í flóknum framkvæmdaverkefnum eru í forgrunni.

Mannverk ehf. hefur frá stofnun unnið að fjölbreyttum byggingarverkefnum um allt land. Má þar nefna íbúðabyggingar, hótelbyggingar, atvinnu- og iðnaðarhúsnæði, auk sérhæfðra verkefna á sviði gagnaversframkvæmda – sem og byggingu baðlóns í Laugarási, sem opnar í sumar.