Framkvæmdir við nýtt baðlón í Laugarási Biskupstungum eru hafnar en stefnt er að opnun í maí 2025. Lónið, sem hefur hlotið nafnið Árböðin, verður staðsett í miðju uppsveita Árnessýslu við bakka Hvítár. Fyrsta skóflustungan var tekin 5.mars en það kom í hlut Ástu Stefánsdóttir, sveitarstjóra Bláskógabyggðar og Hjalta Gylfasonar, framkvæmdastjóra hjá Mannverk að taka fyrstu skóflustunguna.
Arkitektar eru T.ARK, verkfræðihönnun er hjá Eflu og Hildiberg sér um lýsingarhönnun. Sérstök áhersla var lögð á það við hönnun lónsins að um fjölbreytta upplifun gesta yrði að ræða. Lónið byði upp á margþætta upplifun, hvort sem það er í formi heitra eða kaldra baðsvæða, gufubaðs, slökunarrýma eða veitinga. Baðlónið verður hæðaskipt og til að ferðast milli efra og neðra lóns fer gesturinn niður í gegnum gat í vatnsfletinum og kemur út í gegnum lítinn foss inn í neðra lónið.
Verkefnastjóri er Þórunn Arnardóttir og byggingastjóri er Jakob Ásmundsson.