Breytingar í yfirstjórn Mannverks

Ingvar Árnason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri framkvæmda hjá bygginga- og ráðgjafarfyrirtækinu Mannverk ehf. Ingvar tekur við starfinu af Jónasi Má Gunnarssyni sem gegnt hefur þessu hlutverki samhliða starfi forstjóra og mun áfram leiða félagið að áframhaldandi vexti. Ingvar mun gegna hlutverki staðgengils forstjóra, taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins og bera lykilábyrgð á verkefnum félagsins og uppbyggingu starfseminnar.

Ingvar hefur starfað hjá Mannverk síðastliðin tíu ár, lengst af sem yfirverkefnastjóri við byggingu gagnavers Verne Global á Ásbrú. Hann er með menntun í byggingarverkfræði og býr yfir víðtækri reynslu af stýringu flókinna framkvæmda. Áður starfaði hann sem hönnuður og verkefnastjóri hjá Rosenberg WorleyParsons í Noregi.

Ingvar hefur leitt fjölbreytt verkefni á vegum Mannverks, þar á meðal íbúðabyggingar, hótelbyggingar og stórframkvæmdir í gagnaversiðnaði. Þessi reynsla nýtist vel í næstu skrefum félagsins, þar sem vöxtur og aukin sérhæfing í flóknum framkvæmdaverkefnum eru í forgrunni.

Mannverk ehf. hefur frá stofnun unnið að fjölbreyttum byggingarverkefnum um allt land. Má þar nefna íbúðabyggingar, hótelbyggingar, atvinnu- og iðnaðarhúsnæði, auk sérhæfðra verkefna á sviði gagnaversframkvæmda – sem og byggingu baðlóns í Laugarási, sem opnar í sumar.